Hundruð drepin í smábæ

Hundruð líka fund­ust í bæ fyr­ir utan höfuðborg Sýr­lands, Dam­askus, í dag. Harðir bar­dag­ar hafa geisað í fimm daga og segja upp­reisn­ar­menn stjórn­ar­her­inn hafa framið fjölda­morð.

Að minnsta kosti 320 manns eru sagðir hafa fallið í árás­um stjórn­ar­hers­ins í bæn­um Daraya, litl­um bæ fyr­ir utan Dam­askus, að sögn mann­rétt­inda­sam­taka.

Sam­tök­in segja að stjórn­ar­her­inn hafi setið um bæ­inn og komið í veg fyr­ir að þangað væri hægt að flytja vist­ir. Þá hafi hann gripið til þunga­vopna og loft­árása.

Að því loknu hafi hóp­ar „dráp­ara“ komið til bæj­ar­ins og tekið fólk af lífi. Þeir hafi svo brytjað lík­in sund­ur og brennt þau.

AFP-frétta­stof­an seg­ir að ómögu­legt sé að staðfesta þess­ar frétt­ir þar sem er­lend­ir fjöl­miðlamenn fái ekki að at­hafna sig í Sýr­landi.

Í gær er talið að yfir 180 manns hafi fallið í Sýr­landi í átök­um stjórn­ar­hers­ins og upp­reisn­ar­manna. Í Al­eppo var þunga­vopn­um beitt og skriðdrek­ar fóru um göt­ur.

Her­menn and­spyrn­unn­ar settu mynd­band á YouTu­be af því sem þeir segja fjölda­morð í Abu Sleim­an Addarani-mosk­unni í Daraya. Á mynd­band­inu má sjá tugi líka.

Í rík­is­sjón­varpi Sýr­lands í gær kom fram að stjórn­ar­her­inn hefði verið að „hreinsa bæ­inn af hryðju­verka­mönn­um“ en flest­ir íbú­ar Daraya eru súnní-mús­lím­ar.

Stjórn­ar­her­inn náði völd­um í Dam­askus á ný í júlí og þá fluttu her­menn Frels­is­hers Sýr­lands sig til ná­lægra borga og bæja.

Blóðug átök milli stjórn­ar­hers­ins og upp­reisn­ar­manna hafa staðið í um 18 mánuði.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert