„Fæddist ekki jafnaðarmaður“

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, er nú stödd í opinberri heimsókn hér á landi. Hún er fyrsta konan sem gegnir stöðu forsætisráðherra í Danmörku og fyrsta konan sem er formaður danska Jafnaðarmannaflokksins. Hér mun hún eiga fund með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Helle fæddist árið 1966 og ólst upp í Ishøj, suður af Kaupmannahöfn. Foreldrar hennar skildu þegar hún var tíu ára og hún segir á vefsíðu sinni að fjölskyldan hafi gjarnan rætt alla skapaða hluti og að þau hafi sjaldan verið sammála. „Þannig lærðum við að virða skoðanir hvors annars og við lærðum að það er mikilvægt að taka afstöðu. Annars gerir einhver annar það fyrir þig.“

Hóf stjórnmálaafskipti í menntaskóla

Stjórnmálaáhuginn vaknaði á menntaskólaárunum og þar starfaði hún m.a. með friðarhreyfingum. Eftir stúdentsprófið lá leiðin í Kaupmannahafnarháskóla, í stjórnmálafræði og úr því fagi lauk hún meistaraprófi. Hún sérhæfði sig í málefnum Evrópusambandsins og segist þess fullviss að ESB sé leiðin til meiri jöfnuðar og umhverfisverndar í álfunni. Hluta af náminu tók hún við Evrópuháskólann í Brugge í Belgíu og var búsett í nokkur ár í Brussel, þar sem hún starfaði á Evrópuþinginu og síðar var hún kjörin á þingið fyrir hönd Jafnaðarmannaflokksins.

Árið 2005 var Helle Thorning-Schmidt kosin á þing fyrir Jafnaðarmannaflokkinn og tveimur mánuðum síðar varð hún formaður flokksins. Hún  settist síðan í forsætisráðherrastól, fyrst danskra kvenna, í október í fyrra. Helle er gift Stephen Kinnock, syni Neils Kinnock fyrrverandi formanns breska Verkamannaflokksins og eiga þau saman dæturnar Johanne og Camillu.

Jeg kan slå Anders Fogh

Þegar Helle Thorning-Schmidt var kosin á þing í febrúar 2005 lá fyrir að Mogens Lykketoft, formaður Jafnaðarmannaflokksins, hygðist segja af sér, en flokkurinn hafði goldið mikið afhroð í kosningunum.

Áður en þingmaðurinn nýbakaði hafði haldið sína fyrstu ræðu á danska þinginu tilkynnti hún um framboð sitt til formanns flokksins. Eftir nokkuð harðvítuga baráttu við Frank Jensen varð hún fyrsta konan í formannsstóli flokksins. „Jeg kan slå Anders Fogh“, fræg ummæli hennar um að hún gæti velt þáverandi forsætisráðherra, Anders Fogh Rasmussen úr sessi, áttu vafalaust stóran þátt í sigrinum, en sumum þótti hún þar marka nýja braut fyrir flokkinn.

Aldrei áttu þessi orð þó eftir að rætast, því Fogh varð aftur forsætisráðherra eftir kosningarnar 2007. Stóra tækifærið kom síðan í þingkosningunum í fyrra. Eftir 14 daga stjórnarmyndunarviðræður myndaði Jafnaðarmannaflokkur Helle Thorning-Schmidt ríkisstjórn með Vinstriflokknum Venstre og Sósíalíska þjóðarflokknum með stuðningi Einingarlistans.

Umdeild skattamál

Í júní 2010 birti danska dagblaðið B.T. gögn um skattgreiðslur eiginmanns hennar og hafa þau síðan þá hlotið mikla umfjöllun. Hann greiddi skatta sína og skyldur í Sviss, þar sem tekjuskattur er talsvert lægri en í Danmörku og deilt var um hvort honum beri að greiða skatta í Danmörku.

Málið er enn óútkljáð og hefur verið skipuð rannsóknarnefnd sem á að fara yfir málið og kanna hvort Thorning-Schmidt hafi misnotað vald sitt í þessu efni og hvort pólitískir andstæðingar hennar hafi nýtt sér það og hugsanlega gert opinberar persónulegar upplýsingar um hjónin í þeim tilgangi að koma höggi á hana.

Málið hefur tekið á sig ýmsar myndir, en í dönskum fjölmiðlum í dag er haft eftir fyrrum endurskoðanda hjónanna að Kinnock sé samkynhneigður eða tvíkynhneigður. Erfitt er að sjá hvaða tengsl eru á milli kynhneigðar hans og greiðslna á opinberum gjöldum, en hjónin vísa þessu frá og segja í samtali við Politiken í dag að um misskilning sé að ræða. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkur orðrómur kemur upp

Gucci-Helle

Á vefsíðu sinni rekur Thorning-Schmidt ástæður þess að málstaður Jafnaðarmannaflokksins höfðar til hennar. „Ég varð jafnaðarmanneskja vegna þess að fyrir um 30 árum síðan áttaði ég mig á því að fólki er mismunað á grundvelli kyns og kynþáttar. Vegna þess að á 9. áratugnum var hér borgaraleg ríkisstjórn, sem lét sig það engu varða þó að ungt fólk gengi um atvinnulaust. Ég varð jafnaðarmanneskja vegna þess að ég valdi að taka ábyrgð. Ég legg gjarnan áherslu á að ég fæddist ekki jafnaðarmaður, það hef ég valið sjálf,“ skrifar hún á síðunni.

Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að fara lítt eftir þessu og að hafa látið sig félagslegan jöfnuð litlu varða þegar kemur að því að taka ákvarðanir í persónulegu lífi sínu. Til dæmis var mikið fjallað um það í dönskum fjölmiðlum þegar hjónin ákváðu að senda dóttur sína í einkaskóla í stað almenns grunnskóla og sumum eldri Jafnaðarmönnum þykir hún helst til yfirstéttarleg í útliti og framkomu og minna lítt á fyrirrennara sína í formannsstóli flokksins. Hún hefur lengi gengið undir viðurnefninu Gucci-Helle vegna dálætis síns á dýrri merkjavöru.

Vissulega klæðist hún vel sniðnum drögtum, við þær er hún gjarnan í afar hælaháum skóm og á arminum er oft handtaska af dýrari sortinni. En eins og hún hefur sjálf sagt: „Ég geri ráð fyrir að fólk hafi mestan áhuga á að hlusta á það sem ég hef að segja, ekki á því hvernig ég klæði mig.“

Heimsókn Helle Thorning-Schmidt stendur til morguns, en hér mun hún hitta Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að máli á Þingvöllum, heimsækja Alþingi undir leiðsögn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta þingsins og í kvöld situr hún kvöldverð í boði forsætisráðherra og eiginkonu hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert