Hver er Mitt Romney?

Flokksþing Repúblikanaflokksins hófst í dag, en á fimmtudaginn flytur Mitt Romney, sem verður formlega útnefndur forsetaefni flokksins á þinginu, mikilvægustu ræðu á sínum stjórnmálaferli.

Romney er 65 ára gamall. Hann er kvæntur Ann Romney og þau eiga saman fimm syni. Faðir hans var ríkisstjóri í Michigan. Romney var kosinn ríkisstjóri í Massachusetts árið 2002, en gegndi embættinu bara í eitt kjörtímabil því hann var búinn að setja stefnuna á forsetaembættið. Honum tókst ekki að tryggja sér útnefningu flokksins árið 2008 þegar hann tapaði fyrir John MaCain, en í ár náði hann markmiði sínu.

Romney er milljarðamæringur eftir að hafa efnast vel á því að kaupa og selja fyrirtæki. Andstæðingar hans nota það gjarnan gegn honum að hann viti ekkert um lífsbaráttu venjulegs fólks og sé úr tengslum við bandarískt samfélag. Stuðningsmenn Obama hafa líka hamrað á því að Romney hafi á viðskiptaferli sínum bútað fyrirtæki í sundur og lagt niður störf í stað þess að byggja upp atvinnulíf í Bandaríkjunum.

Hófsamur stjórnmálamaður

Romney kemur ekki úr hægri armi Repúblikanaflokksins. Það er almennt ekki mikil eftirspurn eftir mjög hægrisinnuðum stjórnmálamönnum í Massachusetts og því rak Romney hófsama pólitík þar meðan hann var ríkisstjóri. Hann beitti sér m.a. fyrir breytingum á heilbrigðislöggjöfinni sem stuðningsmenn Obama segja að feli um margt í sér svipaðar áherslur og Obama beitti sér fyrir í upphafi kjörtímabils síns. Repúblikanar hafa gagnrýnt heilbrigðislöggjöf Obama harðlega og Romney hefur tekið undir þá gagnrýni.

Þegar Romney var að berjast fyrir því að verða forsetaefni kom skýrt fram að flokksmenn úr hægriarmi flokksins vantreystu honum. Þeim þótti hann vera of reikull og efuðust um að hann væri rétti maðurinn til að fylgja eftir stefnubreytingu sem þeir telja nauðsynlega til að koma Bandaríkjunum á rétt spor eftir stjórnartíð Obama.

Romney hefur því þurft að leggja talsvert á sig til að telja hægrisinnuðum kjósendum í Bandaríkjunum, m.a. í Teboðshreyfingunni, trú um að hann sé rétti maðurinn. Jafnframt þarf hann að fá þá sem eru á miðjunni og eru óánægðir með Obama til að kjósa sig. Hann þarf að ná til minnihlutahópa og kvenna. Ræðumenn á flokksþinginu sem hófst í dag sækja m.a. fylgi sitt til þessara hópa.

Efnahagsmálin vega þyngst

Styrkleikar Romneys liggja ekki síst á sviði efnahagsmála. Skoðanakannanir sýna að kjósendur treysta Romney betur en Obama til að laga það sem úrskeiðis hefur farið í efnahagsmálum. Ef Romney á að sigra þarf honum að takast að láta kosningabaráttuna snúast um efnahagsmál og frammistöðu Obama í þeim málum.

Þess vegna hefur Romney tæplega verið ánægður með framlag Todds Akins, þingmanns frá Missouri, sem sagði í sjónvarpsviðtali að konur gætu komist hjá því að „sönn nauðgun“ leiddi til þungunar. Í nokkra daga var ekki fjallað um annað en fóstureyðingar og stefnu flokksins í þeim málum. Þessi umræða var eins og himnasending fyrir Obama og hefur án efa fengið sumar konur til að hugsa sig um tvisvar áður en þær ákvæðu að kjósa Romney.

Obama með heldur meira fylgi

Kannanir síðustu vikur sýna að Obama er með um 1,4% meira fylgi en Romney. Obama er með meira fylgi en Romney í lykilríkjum eins og Flórída, Ohio, Michigan og Virginíu. Romney vonast eftir að honum takist að ná eyrum kjósenda á flokksþinginu sem dugi til að hann nái forskoti í könnunum. Það er því mikilvægt fyrir hann að vel takist til á þinginu, en því miður fyrir hann hefur athygli fjölmiðla beinst síðustu tvo daga að fellibylnum Ísak sem nú er að ganga á land í suðurríkjum Bandaríkjanna.

Mitt Romney ætlar sér sigur í kosningunum í nóvember.
Mitt Romney ætlar sér sigur í kosningunum í nóvember. JUSTIN SULLIVAN
Ann Romney flytur ræðu á þinginu í kvöld.
Ann Romney flytur ræðu á þinginu í kvöld. AFP
Barack Obama forseti er með örlítið meira fylgi en Romney …
Barack Obama forseti er með örlítið meira fylgi en Romney samkvæmt könnunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert