Paul Ryan tók formlega við útnefningu Repúblikanaflokksins sem varaforsetaefni á flokksþinginu í Tampa í Flórída í nótt. Í ræðu sinni fór hann mikinn gegn Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, gagnrýndi efnahagsstefnu forsetans og var hylltur ákaft fyrir vikið.
„Hann (Obama) byrjaði með því að halda hrífandi ræður og boða breytta tíma. En núna er hann búinn með allar hugmyndirnar sínar. Hans tími kom og fór. Ótti og klofningur er allt sem eftir er,“ sagði Ryan. „Það sem eftir er er forsetaembætti á hrakhólum sem heldur sér á floti með þreyttum slagorðum, heldur dauðahaldi í liðin augnablik, eins og skip sem er að reyna að sigla eftir vindi gærdagsins.
Ég tek á mig þær skyldur að hjálpa til við að leiða þjóðina út úr atvinnuleysi og inn í tíma velmegunar. Ég veit að við getum það,“ sagði hinn 42 ára gamli Ryan.
„Eftir að hafa vaðið í villu í fjögur ár þurfum við á umskiptum að halda. Maðurinn til að vinna það verk er Mitt Romney.“
Stjórnmálaskýrendur hafa sagt val Romneys á varaforsetaefni snjallan leik og Ryan er sagður hafa komið með ferska vinda inn í kosningabaráttu repúblikana. Nokkurs skjálfta gætir í herbúðum demókrata eftir að kunngjört var um varaforsetaefnið og hafa þeir hamrað á því að ef Romney hljóti kosningu muni Ryan hafa frumkvæðið að því að skera niður opinbera þjónustu, ekki síst þá sem snýr að þeim efnaminni.
Hann er þó sagður höfða meira til hins almenna Bandaríkjamanns en hinn vellauðugi Romney.
Í lok ræðu Ryans komu Betty móðir hans, eiginkonan Janna og börn hans Liza, Charlie og Sam upp á sviðið þar sem þau skiptust á kossum og faðmlögum við mikinn fögnuð viðstaddra.