Franski rithöfundurinn Richard Millet hefur valdið miklum úlfaþyt í heimalandi sínu fyrir grein þar sem hann skrifar m.a, að Noregur hafi fengið það sem hann átti skilið þegar Anders Behring Breivik myrti 77 manns í fyrra. Millet segir glæpi Breivik rökrétta afleiðingu af fjölmenningarstefnu Norðmanna.
Millet er virtur höfundur í Frakklandi og hefur m.a. fengið bókmenntaverðlaun frönsku akademíunnar.
Hann skrifar að hann leggi ekki blessun sína yfir verknað Breivik, en Noregur hafi fengið það sem hann átti skilið. Ástæðan sé linkind í innflytjendamálum, fjölmenningarstefna og að leyfa framandi menningaráhrifum að ná yfirhöndinni. Því hafi „sjálfskipaður varðmaður hefðbundins samfélags“ fundið sig knúinn til að grípa til aðgerða.
„Fjölmenning, eins og við höfum fengið hana beint frá Bandaríkjunum, er það versta sem gat komið fyrir Evrópu. Þannig verður til fjöldi hverfa innflytjenda, þar sem gestaþjóðin er einfaldlega ekki lengur til,“ segir Millet og spáir því að viðlíka fjöldamorð verði framin í öðrum löndum.
Þessi skrif hafa vakið mikla umræðu í Frakklandi, en Millet virðist eiga sér fáa skoðanabræður sem eru tilbúnir til að segja að Norðmenn hafi fengið það sem þeir áttu skilið. Millet hefur verið á samningi við hið virta útgáfufyrirtæki Gallimard, sem nú íhugar að hætta öllu samstarfi við hann.