Um 8.000 hermenn fallnir í Sýrlandi

Særður hermaður úr sýrlenska hernum á Tishrin hersjúkrahúsinu í Damaskus.
Særður hermaður úr sýrlenska hernum á Tishrin hersjúkrahúsinu í Damaskus. AFP

Rúmlega 8.000 stjórnarhermenn og meðlimir öryggissveita sýrlenska ríkisins hafa látið lífið frá því að mótmæli og uppreisn braust út í landinu í mars í fyrra. Þetta segir yfirmaður Tishrin-hersjúkrahússins í Damaskus.

„Á degi hverjum tökum við að meðaltali við líkum 15-20 hermanna og liðsmanna öryggissveitanna og þeim fjölgar sífellt,“ segir yfirmaðurinn í samtali við AFP-fréttastofuna, en hann vill ekki láta nafns síns getið. 

Hann segir að í gær hafi sjúkrahúsið tekið við líkum 47 manna, en þegar bardagar stóðu sem hæst í borginni í júlí hafi þau verið allt að 100 daglega, marga daga í röð.

Um 60% látast vegna skotsára, 35% látast í sprengingum og 5% eru myrt á grimmilegan hátt, t.d. afhöfðuð.

Mannréttindasamtök segja að meira en 25.000 manns hafi látist í átökum í landinu síðan í mars í fyrra. Meirihluti þeirra er almennir borgarar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert