Frakkar og Rússar berjast við Borodino

Áhugamenn um sögu ætla í dag að setja á svið orrustuna við Borodino, en það er blóðugasta orrusta sem Frakkar og Rússar háðu í stríðinu 1812. Um þessar mundir eru 200 ár frá orrustunni þar sem létust um 70 þúsund manns.

Orrustan var háð 7. september 1812. Napóleon hafði gert innrás í Rússland. Stjórnendur rússneska hersins hörfuðu og komu sér hjá því að takast á við fjölmennt herlið Frakka.

Rússneski hershöfðinginn Mikhail Kutuzov ákvað hins vegar að mæta innrásarhernum við þorpið Borodino, um 120 kílómetra frá Moskvu. Frökkum mistókst að gera út af við rússneska herinn þrátt fyrir að hann færi halloka í orrustunni.

Í fyrri orrustum hafði Napóleon oft sent heri sína á eftir á eftir andstæðingnum þegar hann var í vörn. Að þessu sinni ákvað hann að gera það ekki þó að lífvarðasveit hans væri til reiðu. Þar með missti hann af einstöku tækifæri til að gera út af við rússneska herinn.

Orrustan við Borodino var síðasta orrustan sem Napóleon stjórnaði í Rússlandi. Hann komst til Moskvu en sneri aftur til Parísar. Stærstur hluti hersins fórst úr kulda, hungri og sjúkdómum á leiðinni heim um miðjan vetur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert