Lítil hætta er á því að Julian Assange verði framseldur til Bandaríkjanna frá Svíþjóð, að sögn Williams Hagues, utanríkisráðherra Bretlands. Hague segist vilja hefja viðræður við Ekvador að nýju og finna diplómatíska lausn í deilunni um Assange.
Ákvörðun stjórnvalda í Ekvador um að veita Assange hæli, til að forða honum frá framsali til Bandaríkjanna þar sem hans kynni að bíða dauðarefsing, hefur gert það að verkum að pattstaða er komin upp í máli Assanges og er það miður að mati Hagues. Hann segir Assange ekki stafa nein ógn af framsali til Svíþjóðar. Enginn grundvöllur sé fyrir yfirlýsingum um að mannréttindum Assange verði stefnt í hættu.
„Bæði Bretland og Svíþjóð hafa skrifað undir mannréttindasáttmála Evrópu og bresk stjórnvöld hafa fullt traust á sjálfstæði og sanngirni sænska réttarkerfisins,“ sagði Hague í dag. Hann benti á að Svíþjóð væri skuldbundin til að neita beiðni um framsal til Bandaríkjanna ef ljóst væri að brotið yrði á mannréttindum Assanges og yrði að auki að fá samþykki breskra stjórnvalda áður.
„Tæknilega séð getur Bretland aðeins samþykkt að Assange verði framseldur til þriðja lands frá Svíþjóð ef sannað er að mannréttindum hans verði ekki stefnt í hættu með því og að engin hætta sé á að hans bíði dauðarefsing.“
Hague ítrekaði einnig að Bretar hefðu ekki í hyggju og aldrei hótað því að ráðast inn í sendiráð Ekvadors.