Stofnanir Evrópusambandsins þurfa meiri völd yfir ríkjum sambandsins til þess að takast á við efnahagserfiðleikana innan þess að mati forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, José Manuels Barroso. Hann vill að Lissabon-sáttmáli Evrópusambandsins verði endurskoðaður í því ljósi.
Þetta kom fram í ræðu sem hann flutti um síðustu helgi á fundi með dómurum stjórnlagadómstóla sem fram fór í Haag í Hollandi en fundurinn var skipulagður af Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Þar kallaði Barroso ennfremur eftir því að evrópsk endurnýjun ætti sér stað og að tekin yrðu stór skref til frekari samruna innan Evrópusambandsins.
„Yfirstandandi erfiðleikar hafa fært heim sönnur um takmörk sjálfstæðra aðgerða þjóðríkjanna. Endurnýja þarf Evrópusambandið og grundvallaratriði sáttmálans,“ sagði Barroso samkvæmt fréttavefnum Euobserver.com.