Þrátt fyrir að veirusýking sem smitað hefur gesti Yosemite-þjóðgarðsins í Kaliforníu hafi dregið tvo til dauða stendur ekki til að loka garðinum.
Sex hafa orðið alvarlega veikir vegna veirunnar sem er svo banvæn að talið er að hún dragi þrjá af hverjum sex sem smitast til dauða. Engin lækning finnst við sjúkdómnum sem veiran veldur. Veiran berst m.a. með músarskít.
„Svo lengi sem fólk er á stöðum þar sem loft er gott og fylgist með að mýs séu ekki á svæðinu ætti öllu að vera óhætt,“ segir talsmaður garðsins. Hann ítrekar að ekki sé hægt að smitast af veirunni með því einu að ganga um garðinn. Ekki sé nauðsynlegt að bera grímur í garðinum.
Á föstudag gaf heilbrigðiseftirlitið út að um 10 þúsund manns hafi getað komist í snertingu við veiruna í garðinum en talið er að smitið megi rekja til fjallakofa sem þar er að finna. Talsmaður garðsins telur að mun færri hafi verið á svæðinu sem smitið fannst á á tímabilinu 10. júní-24. ágúst, líklega um 3.000. Búið er að hafa samband við alla og vara þá við en hafi fólk smitast getur það tekið allt að sex vikur að fá einkenni. Meðal helstu einkenna eru öndunarerfiðleikar.