Skuldir Bandaríkjanna fóru yfir 16 þúsund milljarði dollara í síðustu viku. Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur fengið mikla gagnrýni á sig vegna mikils halla í ríkisrekstri og eru margir minnugir orða hans um að hann hygðist skera niður hallarekstur ríkisins um helming þegar hann tók við embætti árið 2009.
Mikið hefur verið rætt um skuldir bandaríkjamanna við útlönd í aðdraganda forsetakosninga sem fram fara í nóvember. Sérstaklega hefur lántaka Bandaríkjamanna í Kína verið áberandi í þessu samhengi. Þrátt fyrir það má einungis rekja um 8% skulda Bandaríkjamanna til Kína. Langstærstur hluti skulda bandarískra stjórnvalda má rekja til lántöku innanlands.
„Það er satt að stærsti hluti skulda okkar erlendis er staðsettur í Kína. Stærstur hluti skulda þjóðarbúsins má hins vegar rekja til skulda innanlands," segir Josh Gordon sem fer fyrir hópi samtaka sem vill ná niður fjárlagahalla Bandaríkjanna.
Bandaríska ríkið skuldar 5 þúsund milljarði til sjóða í almennri eigu á borð við lífeyrissjóði. Hins vegar skuldar ríkið um 11 þúsund milljarði dollara til erlendra sem innlendra aðila.
Kína og Japan eru langstærstu erlendu lánveitendur bandaríska ríkisins. Skuldar ríkið Kínverjum 1,31 þúsund milljarð dollara en Japönum 1,12 þúsund milljarð dollara. Þetta eru langsamlega stærstu erlendu lánveitendur Bandaríkjamanna þó Brasilíumenn, Tævanar, Svisslendingar og Bretar séu einnig stórir lánveitendur.
Bandaríkin skulduðu um 10,6 þúsund milljarða dollara 20. janúar árið 2009 þegar Obama tók við en skuldirnar hafa vaxið um 5,4 þúsund milljarða frá þeim tíma.