Norðmenn flýja hátt verð til Svíþjóðar

Dýrt er að kaupa í matinn í Noregi.
Dýrt er að kaupa í matinn í Noregi. Ásdís Ásgeirsdóttir


Norðmenn bregða sér í síauknu mæli yfir landamærin til Svíþjóðar til þess að versla í matinn. Nýleg rannsókn sýnir að Norðmenn keyptu mat fyrir 11,7 milljarða norskra króna á síðasta ári en það jafngildir tæpum 249 milljörðum íslenskra króna.

Norðmenn juku neyslu sína í sænskum matvörubúðum um 9% á síðasta ári. Norskir viðskiptamenn hafa lýst yfir áhyggjum af þróuninni og telja hana leiða til atvinnuleysis í matvörubúðum og skerða tækifæri viðskiptamanna.

Norðmenn geta sparað töluverða peninga með því að fara til Noregs til að versla. Á síðasta ári fjölgaði heimsóknum Norðmanna til Svíþjóðar um 4% og voru þær alls 6,7 milljónir árið 2011. Samkvæmt hagstofu Noregs fara 5% matarainnkaupa Norðmanna fram í Svíþjóð.

Á sama tíma berast sögur um metafkomu verslana í Svíþjóð sem staðsettar eru nærri landamærunum.

Stjórnmálamenn í Noregi eru farnir að gefa þessari þróun gaum. Mál margra er að háir skattar í landinu eigi stóran þátt í þróuninni. Fyrir vikið geti fólk sparað að lágmarki 20-30% með því að versla í Svíþjóð. Þetta kemur fram í Aftonbladet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert