Árið 2008 virtist sem umdeild ummæli Michelle Obama gætu haft neikvæð áhrif á kosningabaráttu eiginmanns hennar. Hún hefur síðan unnið hug og hjarta þjóðarinnar. Michelle er vinsælli en Barack Obama og hún er stjarna kvöldsins á setningu flokksþings demókrata sem nú stendur yfir.
Lögfræðimenntuð úr Harvard og Princeton
Enn hefur kona ekki verið kjörinn forseti í Bandaríkjunum, en eiginkonur forsetanna hafa hins vegar haft töluverð áhrif í gegnum tíðina, ýmist bak við tjöldin eða á opinberum vettvangi. Michelle Obama var ekki allra þegar eiginmaður hennar barðist fyrir kjöri árið 2008 en orðstír hennar hefur vaxið jafnt og þétt og í dag má segja að hún sé pólitísk stjarna í Bandaríkjunum.
Michelle er engin eftirbátur eiginmanns síns. Hún er af alþýðuættum en braust til mennta og lauk laganámi frá toppháskólunum Harvard og Princeton. Í lokaritgerð sinni fjallaði hún m.a. um áhrif þess að vera svartur stúdent í háskóla þar sem mikill meirihluti nemenda er hvítur. Í kosningabaráttu Baracks Obama var ritgerðin dregin fram og skrif hennar sögð bera vitni um að hún væri mjög upptekin af kynþætti fólks.
Sögð óþjóðrækinn og andbandarísk
Hún vakti líka litla lukku þegar hún lét þau orð falla í síðustu kosningabaráttu að nú væri hún stolt af Bandaríkjunum „í fyrsta sinn á ævinni“. Andstæðingar Obama sökuðu hana þá um að vera óþjóðrækinn og andbandarísk. Hún vakti þó líka athygli fyrir sköruglega og opinskáa framkomu auk þess sem hún þykir afar glæsileg.
Sumir töldu að hún tæki of mikla athygli frá eiginmanni sínum, forsetafrúr ættu ekki að trana sér svona mikið fram. Sérfræðingar voru settir í að milda framkomu hennar og draga fram eiginleika hennar sem móðir og eiginkona. Á endanum reyndist hún enginn dragbítur því vinsældir Michelle hafa unnið mjög með Obama.
Vinsælli en forsetinn
Vinsældir forsetans tóku að dvína strax á fyrstu mánuðum hans í embætti, en vinsældir Michelle Obama hafa hins vegar farið stigvaxandi og hún er í miklu uppáhaldi hjá fjölmiðlum vestra. Í Gallup könnun í maí sögðust 66% aðspurðra vera sáttir við Michelle Obama, en 52% sáttir við Barack Obama.
Flokksþing Demókrataflokksins, þar sem Obama hlýtur formlega útnefningu sem forsetaefni flokksins, var sett í kvöld. Hápunktur dagskrárinnar við setninguna er ávarp forsetafrúarinnar, sem beðið er með talsverðri eftirvæntingu.