Stúdentar i Hong Kong mótmæla nú harðlega fyrirætlunum stjórnvalda um að setja á skyldukúrs í kínverskri þjóðernishyggju. Tugir þúsunda stúdenta létu í sér heyra á götum úti í gær, en þingkosningar eru framundan.
Börn heilaþvegin með áróðri Kommúnistaflokksins
Skipuleggjendur mótmælanna segja að 120.000 manns hafi mætt fyrir utan höfuðstöðvar ríkisstjórnarinnar, en lögregla segir að mótmælendur hafi verið 36.000 talsins. Mótmælin hafa stigmagnast undanfarna 10 daga og segja talsmenn stúdenta að þau séu einstæð.
„Það kom mér á óvart hvað rosalega margir mættu og ef ríkisstjórnin fellir ekki niður þetta fag þá eru þau ekki að hlusta á vilja fólksins,“ hefur Afp eftir 15 ára gömlum mótmælanda.
Mótmælin hófust í júlí, vegna fyrirætlananna sem stúdentar segja að séu þvingunaraðgerð frá Peking ætluð til að heilaþvo börn með áróðri Kommúnistaflokksins. Mótmælt hefur verið nánast daglega undanfarnar tvær vikur og er málið farið að valda ríkisstjórninni talsverðum vandræðum, en kosið verður til þings á morgun.
Vísa til mótmælanna á Tiananmen
14 manns eru í hungurverkfalli framan við þinghúsið við höfnina í Hong Kong og hafa stúdentarnir reist eftirlíkingu af lýðræðisstyttunni, sem var táknmynd stúdentamótmælanna á Torgi hins himneska friðar árið 1989.
Stjórnvöld segja að fagið sem um ræðir sé „þjóðleg menntun“ sem sé mikilvæg til að rækta með stúdentum samkennd og þjóðlega sjálfsmynd. Til stendur að fagið verði tekið upp sem skylda í öllum grunnskólum og gagnfræðaskólum fyrir árslok 2016. Vaxandi mótstaða er við kínversk stjórnvöld í Hong Kong.