Yfir tólf þúsund manns tóku þátt í mótmælum í grísku borginni Þessalónikíu í kvöld en þetta eru mun færri heldur en tóku þátt í sambærilegum mótmælum fyrir ári síðan.
Nú, líkt og áður, er verið að mótmæla niðurskurði hjá hinu opinbera í tengslum við lán sem Grikkland fær frá alþjóðasamfélaginu.
„Gríska þjóðin getur ekki meir,“ er meðal þess sem stóð á spjöldum mótmælenda.
Alexis Tsipras, formaður vinstriflokksins Syriza, er andsnúinn neyðarláni Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að stutt sé í að meirihluti grísku þjóðarinnar grípi til sinna ráða. Segir hann að forsætisráðherra landsins, Antonis Samaras, sé að fara leiða landið til glötunar.
Eftir að skipulögðum mótmælum lauk safnaðist hluti mótmælendanna saman skammt frá háskólanum og réðust á lögreglu sem svaraði með táragasi og reyksprengjum.