Fangelsisdómurinn yfir Anders Behring Breivik tók formlega gildi á miðnætti aðfaranótt föstudags. Í dag missir hann aðgang að einkatölvu, sem hann hafði í fangaklefa sínum í gæsluvarðhaldinu.
Breivik fékk tölvuna samkvæmt samkomulagi við lögreglu og var það fyrsta krafan sem hann setti fram við yfirheyrslur. Hann hafði þó ekki aðgang að netinu. Þar sem Breivik er nú ekki lengur í haldi lögreglu er samkomulagið hins vegar fallið úr gildi, eða svo segir norska blaðið Dagbladet.
Fram kemur á vef þeirra að Breivik hafi brugðist pirraður við boðum lögreglu um að tölvan yrði sótt, og prentað út allt það sem hann hefur skrifað á hana undanfarið rúmt ár. „Breivik telur að þetta sé klárt samningsbrot og honum er ekki skemmt,“ er haft eftir einum verjenda hans, Tord Jordet, á vef Dagbladet.