Vopnaður múgur réðst á sendiráð Bandaríkjanna í borginni Benghazi í Líbíu í dag og kveikti í húsinu. Fólkið var með þessu að mótmæla kvikmynd, sem sögð er móðgandi við íslamstrú. Svipaður atburður varð í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, þar sem bandaríski fáninn var rifinn niður af sendiráðinu og svartur fáni hengdur upp í hans stað.
Ekki er ljóst hvort tengsl eru þar á milli, en líkum hefur verið leitt að því að engin tilviljun sé að atburðina beri upp á daginn í dag, þegar 11 ár eru liðin frá árásum al-Qaeda á tvíburaturnana í New York.
Fólkið, sem réðst inn í sendiráðið í Líbíu skaut í allar áttir, en engum sögum fer af manntjóni eða slysum á fólki. Vopnaðir menn lokuðu öllum götum sem liggja að sendiráðinu og Salafistar, sem eru afar heittrúaðir múslímar, voru meðal mótmælendanna.