Fimmtíu bandarískir landgönguliðar hafa fengið fyrirmæli um að halda til Líbíu og hafa uppi á morðingja sendiherra Bandaríkjanna í landinu, Christophers Stevens, en hann lét lífið þegar skæruliðar réðust á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í borginni Benghazi í gær.
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að vaxandi grunsemdir séu um að árásin, sem einnig kostaði þrjá aðra bandaríska embættismenn lífið, hafi ekki verið framkvæmd af reiðum múgi heldur verið skipulögð nákvæmlega af hryðjuverkamönnum tengdum hryðjuverkasamtökunum al-Kaída.
Þá segir að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafi fordæmt morðin á Stevens og hinum þremur embættismönnunum og lýst því yfir að réttlætinu verði fullnægt.