Stjórnvöld í Líbíu saka fylgismenn Muammars Gaddafi, fyrrverandi forseta landsins, og liðsmenn al-Qaeda um að bera ábyrgð á morðinu á sendiherra Bandaríkjanna í Líbíu í gær.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, segir að þrátt fyrir morðið muni Bandaríkin ekki snúa baki við Líbíu. Hún sakar fámennan hóp villimanna um að bera ábyrgð á dauða sendiherrans, Christophers Stevens, og fleiri úr sendinefnd Bandaríkjanna í Líbíu, í borginni Benghazi í gærkvöldi.
Forseti Líbíu, Mohamed al-Megaryef, segir árásina tengjast dagsetningunni beint en í gær voru 11 ár liðin frá árásum al-Qaeda á Bandaríkin.
Hann segir stjórnvöld í landinu ekki sætta sig við að slíkar árásir hugleysingja í hefndarhug séu gerðar í Líbíu. Þetta hafi kannski verið liðið hjá fyrrvernadi stjórnendum landsins en ekki þeim sem ráði ríkjum í dag. Markmið þeirra sé að koma á lýðræði í landinu.