Tólf látnir vegna áfengiseitrunar

Neysla á tréspíra getur verið banvæn
Neysla á tréspíra getur verið banvæn mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tólf eru látnir og 21 hefur verið lagður inn á sjúkrahús í Tékklandi eftir að hafa drukkið tréspíra, samkvæmt upplýsingum frá tékknesku lögreglunni.

Staðfest hefur verið að níu þeirra tólf sem hafa látist hafi látist vegna eitrunar. Beðið er niðurstöðu krufningar hinna þriggja. Óttast er að mun fleiri hafi veikst en að sögn lögreglu berast sífellt fleiri upplýsingar um fólk sem hefur veikst eftir að hafa drukkið eitrað áfengi. Einhverjir þeirra sem eru á sjúkrahúsi eru meðvitundarlausir og ástand þeirra alvarlegt. Eins hafa einhverjir blindast.

Segja yfirvöld í Tékklandi áfengiseitrunina þá verstu í þrjátíu ár í Tékklandi. Eru það einkum héruð í austri sem hafa orðið illa úti. Á sunnudag ákærði lögregla 36 ára gamlan karlmann í tengslum við eitrunina. Yfirvöld leita nú að tréspíra á veitingastöðum, börum og í verslunum sem selja áfengi. Annar maður sem dreifði tréspíranum er í haldi í borginni Zlin. Hins vegar er ekki vitað hvort einn maður standi á bak við söluna eða hvort fleiri hafi staðið á bak við söluna á eitrinu.

Metanól eða tréspíri finnst í ýmsum iðnaðarvörum, til dæmis rúðuhreinsivökvum og frostlegi. Einkenni metanóleitrunar koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir 12-24 klst eftir inntöku, þ.e. eftir að maurasýra hefur myndast í nægjanlegu magni til að valda eitrun. Einkenni eitrunarinnar eru sljóleiki, sjóntruflanir (getur endað sem varanleg blinda), ógleði, uppköst, kviðverkir, rugl, höfuðverkir, krampar, meðvitundarleysi og svæsin efnaskiptasýring, samkvæmt skilgreiningu á efninu á Wikipedia.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert