„Geert Wilders var refsað fyrir and-Evrópu stefnuna. Hann gekk of langt fyrir hollenska kjósendur,“ segir stjórnmálafræðingurinn Andre Krouwel við Vrij Universitet í Amsterdam. Hann segir Wilders ekki hafa áttað sig á því að Hollendingar hafi takmarkað umburðarlyndi fyrir umburðarleysi.
Niðurstöður þingkosninganna í Hollandi í gær komu nokkuð á óvart, ekki síst það að Frelsisflokkur hægri þjóðernissinnans Gerts Wilders hafi tapað 9 þingsætum. Tveir miðjuflokkar sem styðja nánari samvinnu innan Evrópusambandsins unnu sigur og geta þeir því myndað ríkisstjórn án stuðnings Frelsisflokksins.
Beygir sig ekki fyrir Brussel
Þrátt fyrir að vera umdeildur mjög fyrir athafnir sínar og ummæli gegn múslímum hafa áhrif Wilders verið talsverð í hollenskum stjórnmálum. M.a. tókst honum að fella síðustu ríkisstjórn, með því að draga sig út úr fjárlagaviðræðum sem miðuðu að því að ná fjárlagahallanum niður fyrir 3% viðmið evrusvæðisins. Wilders sagðist ekki „beygja sig fyrir einræðisherrum í Brussel“.
Þetta gæti hins vegar hafa leitt til falls hans, því Frelsisflokkurinn tapaði mestu fylgi allra flokka og stendur nú uppi meðaðeins 15 þingsæti í stað 24 áður. „Ég held að stór hluti kjósenda hafi ekki fyrirgefið honum að hafa fellt ríkisstjórnina og þvingað fram snemmbúnar kosningar,“ hefur Afp eftir stjórnmálaprófessornum Claes de Vreese við Amsterdamháskóla. Wilders hafi verið ábyrgur fyrir því að Holland var stjórnlaust í 6 mánuði í miðri kreppu.
Múslímar í Hollandi gleðjast
Hollenskir stjórnmálaskýrendur telja þó að ferli Wilders sé hvergi nærri lokið. Hegðun hollenskra kjósenda sé líkt og víðast í Evrópu svo hviklynd að falli samsteypustjórnin sem nú hefur verið mynduð þá sé allt eins líklegt að kjósendur snúi sér aftur að pópúlistum eins og Wilders.
Sjálfum virtist Wilders nokkuð brugðið þegar ljóst varð í nótt hversu miklu Frelsisflokkurinn tapaði. „Þeir halda veislu í Brussel núna. Þvílík synd,“ sagði hann við stuðningsmenn sína en bætti við að baráttunni væri ekki lokið.
Á sama tíma fögnuðu múslímar í Hollandi tapi hans og segir í fréttum að smáskilaboð hafi gengið milli í innflytjendasamfélaginu þegar ljóst var að Geert galt afhroð. „Ég er stolt af því að Hollendingar kusu hann ekki,“ hefur Afp eftir tvítugri stúlku af marokkóskum uppruna.