Mótmæli héldu áfram að breiðast úr um Mið-Austurlönd og Norður-Afríku í dag vegna myndbands sem talið er gera lítið úr Múhameð, spámanni múslima, og hafa þau í flestum tilfellum beinst gegn sendiráðum Bandaríkjanna og skrifstofum á vegum bandarísku utanríkisþjónustunnar.
Ráðist hefur verið á bandaríska sendiráðið í Jemen samkvæmt frétt New York Times þar sem kveikt hefur verið í bifreiðum og bandaríski fáninn rifinn niður. Þá hafa átök verið á milli lögreglu og mótmælenda þriðja daginn í röð fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Kaíró höfuðborg Egyptalands.
Eins og mbl.is hefur fjallað um lét sendiherra Bandaríkjanna í Líbíu lífið ásamt þremur öðrum bandarískum embættismönnum þegar árás var gerð á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í borginni Benghazi í fyrradag.
Þá hafa einnig átt sér stað mótmæli í Marokkó, Súdan og Túnis og hefur lögregla gripið til þess ráðs að beita táragasi til þess að dreifa mannfjöldanum. Fram kemur í frétt frá Reuters að um 200 mótmælendur hafi safnast saman fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna í Túnis.