John McCain, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Bandaríkjunum og fyrrum forsetaframbjóðandi, segir að veiklyndi Baracks Obama Bandaríkjaforseta sé um það að kenna að ráðist var á sendiráð landsins í Líbíu, Jeman og Egyptalandi í gær og í dag.
Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, er sagður hafa tekið mikla pólitíska áhættu þegar hann gagnrýndi viðbrögð Obama, skömmu eftir að fregnir bárust af því að fjórir hefðu látið lífið í árásinni í Líbíu. Aðrir repúblikanar voru fljótir að taka undir með honum, sér í lagi McCain sem tapaði fyrir Obama í kosningunum 2008, en hann segir Obama sífellt biðjast afsökunar á bandarískum gildum.
„Þetta snýst um veiklyndi þjóðarinnar og skort á leiðtogahæfni hjá forsetanum,“ sagði McCain í samtali við sjónvarpsstöðina NBC dag. „Írak er að leysast upp, samband okkar við Ísrael er afar viðkvæmt. Ég myndi vilja sjá forseta Bandaríkjanna taka málstað þeirra 20.000 Sýrlendinga sem hafa látist þar í átökum.“
„Sú skoðun er útbreidd í Mið-Austurlöndum að Bandaríkin séu veikburða,“ sagði McCain.