Mótmælendur réðust að sendiráðum Þýskalands, Bretlands og Bandaríkjanna í Súdan í dag. Sendiráðin eru í höfuðborginni Khartoum. Þýski utanríkisráðherrann, Guido Westerwelle, segir að starfsfólk sendiráðsins í Súdan sé óhult. Bandaríkin hafa hert öryggi við sendiráð sín.
„Þýska sendiráðið í Súdan verður nú fyrir árásum frá mótmælendum. Starfsfólkið er öruggt,“ segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðherranum. Um 5.000 manns taka þátt í mótmælum sem beinast að þýska og breska sendiráðinu í landinu. Lögreglan hefur beitt táragasi því mótmælendur hindruðu m.a. aðgang sjúkrabíla að svæðinu.
Mótmælendur kveiktu elda og rifu niður þýska fánann og settu fána íslamista í hans stað fyrir utan sendiráðið. Fjöldamörg mótmæli eru nú við sendiráð Bandaríkjanna víða í arabaheiminum.
Lögregla beitti í morgun táragasi á æstan múg fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í Kaíró í Egyptalandi. Þá skaut lögregla á mótmælendur við sendiráði Bandaríkjanna í Jemen í dag.
Þá hefur einn maður látið lífið og 25 særst í átökum mótmælenda og lögreglu í Líbanon. Einnig réðust mótmælendur þar á og kveiktu í KFC-veitingastað.
Mótmælendur í Teheran í Íran hrópa „Deyi Bandaríkin“ á götum úti.
Verið er að mótmæla kvikmynd, sem sögð er vera framleidd í Bandaríkjunum, en í henni er hæðst að Múhameð spámanni.
Einnig eru mótmæli við sendiráði í Marokkó, Túnis og víðar.