Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, John Major, kallar eftir því í grein í dag á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Bretar fari fram á það við Evrópusambandið að staða landsins innan sambandsins verði tekin til endurskoðunar.
Framundan séu breytingar á Evrópusambandinu sem ekki verði hægt að smygla inn um bakdyrnar og muni hafa áhrif á öll ríki innan sambandsins. Líklega þurfi að breyta sáttmálum Evrópusambandsins vegna þeirra sem þurfi samþykki allra ríkja sambandsins.
Major telur að Bretar eigi að nota það tækifæri til þess að endursemja um veru sína innan Evrópusambandsins þannig að Bretland standi áfram utan evrusvæðisins og taki ekki þátt í breytingum sambandsins í átt að sambandsríki en verði samt áfram hluti af innrimarkaði þess.
„Það er hægt að komast að samkomulagi. Tengsl okkar við Evrópusambandið hafa valdið sársauka í breskum stjórnmálum í meira en hálfa öld. Tækifærið er framundan til þess að semja um fyrirkomulag sem er ábyrgara gagnvart hagsmunum okkar og aðstæðum,“ segir Major í grein sinni.