Tólf þýskir bændur, sem myrtir voru í lok síðari heimsstyrjaldar í Tékkóslóvakíu, voru jarðsettir í dag í borginni Jihlava, sem er 130 kílómetrum sunnan við Prag. Er jarðsetningin liður í því að laga samskipti ríkjanna í kjölfar stríðsins.
Meðferðin á hinum svonefndum Súdeta-Þjóðverjum í lok heimsstyrjaldarinnar hefur löngum valdið streitu í samskiptum Þjóðverja og Tékka, en þeir voru reknir frá heimilum sínum og neyddir til þess að flytja yfir landamærin til Þýskalands í hefndarskyni fyrir hernám Þjóðverja.
Bændurnir tólf voru drepnir aðfaranótt 20. maí 1945 af herflokki Tékkóslóvaka og fleygt í ómerkta gröf. Þeir fundust svo 67 árum seinna í kjölfar opinberrar rannsóknar í mál þeirra. Blaðamaðurinn Miroslav Mares hafði þá rannsakað morðin og komist að þeirri niðurstöðu að engin sönnunargögn væru fyrir því að bændurnir hefðu staðið fyrir nokkru ofbeldi gagnvart Tékkum.
Súdetahéruðin svokölluðu tilheyrðu Tékkóslóvakíu fyrir stríð, en þar bjó einkum þýskumælandi fólk. Adolf Hitler gerði kröfu til þessara héraða og leiddi það til München-samninganna í september 1938, þar sem Tékkóslóvökum var gert að afhenda Þýskalandi héruðin. Þjóðverjar hernumdu afganginn af landinu í marsmánuði 1939 í aðdraganda heimsstyrjaldarinnar. Þegar styrjöldinni lauk ákvað Tékkóslóvakía að gera eigur Súdeta-Þjóðverja upptækar og neyða þá frá heimilum sínum yfir til Þýskalands, en þeir voru þá um þrjár milljónir.