Fjöldi herskipa hefur safnast saman í Hormuz-sundi við mynni Persaflóa en um er að ræða skip frá 25 ríkjum og þar á meðal flugmóðurskip, tundurspilla, freigátur, tundurduflaslæðara og kafbáta. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Tilefnið er vaxandi spenna á milli Ísraels og Írans.
Fram kemur að vestrænir leiðtogar séu sannfærðir um að stjórnvöld í Íran muni svara í sömu mynt ef ráðist verði á landið. Það verði meðal annars gert með því að leggja tundurdufl í sundið eða reyna að loka því en um 18 milljónir tunna af olíu eru fluttar um sundið með olíuskipum á degi hverjum. Það eru um 35% af olíu sem flutt er sjóðleiðina á markaði.
Ef Írönum tækist að loka Hormuz-sundi fyrir skipaumferð hefði það hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir viðkvæmt efnahagslíf Bandaríkjanna, ríkja Evrópusambandsins og Japans en öll eru þessi ríki mjög háð olíu og gasi af Persaflóasvæðinu. Sundið er mjög þröngt en það er aðeins tæplega 34 kílómetrar á breidd frá strönd Írans öðrum megin og Sameinuðu arabísku furstadæmunum hinum megin.
Tilgangur herskipaflotans er því að vera viðbúinn hugsanlegum viðbrögðum Írana við árás eða árás þeirra að fyrra bragði en í flotanum eru meðal annars skip frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Saudi Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum en þau munu verða við heræfingar á svæðinu næstu tólf dagana. Fram kemur að um sé að ræða stærstu heræfingu á svæðinu til þessa.