Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að það væri nauðsynlegt að setja niður ákveðnar „rauðar línur“ til þess að koma í veg fyrir að Íranar yrðu sér úti um kjarnorkuvopn.
Ísraelsmenn hafa sagt að Íran búið kjarnorkuvopnum væri ógn við tilvist Ísraelsríkis og hafa því haldið opnum hernaðarúrræðum til þess að binda enda á kjarnorkuáætlun Írans. Helstu bandamenn Ísraela hafa hins vegar frekar vilja beita Írana þrýstingi með refsiaðgerðum.
Netanyahu sagði við CNN-fréttastofuna í dag að Íranar væru að nálgast það stig í auðgun úrans að þeir gætu farið að framleiða kjarnorkusprengjur. „Það er mikilvægt að setja niður rauða línu, og ég tel að það dragi úr líkunum á átökum, því ef þeir vita að það eru takmörk fyrir því hvað þeir geta farið langt ... að þá muni þeir ekki fara þangað.“
Samskipti Netanyahus og Baracks Obama Bandaríkjaforseta eru sögð vera við frostmark og munu leiðtogarnir ekki hittast í heimsókn Netanyahus til Bandaríkjanna sem nú stendur yfir. Leon Panetta, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vildi í viðtali við Foreign Policy á föstudaginn gera lítið úr meintum ágreiningi á milli landanna tveggja og sagði að leiðtogar ríkjanna hefðu engar rauðar línur sem sæju um ákvarðanatöku, heldur styddust þeir við staðreyndir um fyrirætlanir annarra ríkja.