Fregnir frá Afganistan herma að átta konur hafi verið á meðal óbreyttra borgara sem féllu í loftárás Atlantshafsbandalagsins í dag. Hefur bandalagið lent í nokkrum skakkaföllum um helgina, en sex hermenn voru felldir í gær af afgönskum lögreglumönnum og ráðist var á herstöðina Camp Bastion.
Fyrstu fregnir frá ISAF, sveitum bandalagsins í Afganistan hermdu að um 45 uppreisnarmenn hefðu verið skotmarkið í loftárás bandalagsins í Laghman-héraði. Í annarri tilkynningu sem ISAF sendi frá sér síðar um daginn harmaði bandalagið hugsanlegt mannfall meðal óbreyttra borgara.
Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að átta konur hafi látist og aðrar átta slasast í árásinni, en þær höfðu farið út til þess að safna eldiviði. Munu menn í ættbálkum þeirra hafa borið líkin til höfuðborgar Laghman-héraðs, Mihtarlam og hrópað slagorð gegn Bandaríkjunum og gyðingum.
Hamid Karzai, forseti Afganistans fordæmdi árásina í dag, en loftárásir Atlantshafsbandalagið hafi valdið streitu í samskiptum bandalagsins og Afganistans. Leiddi það til þess að í júní ákvað bandalagið að draga úr loftárásum. Atburðir helgarinnar þykja benda til þess að talibanar séu nú betur þjálfaðir og skipulagðir en áður.