„Alvarlegasta árásin á íslam“

Frá mótmælum við sendiráð Bandaríkjanna í Pakistan.
Frá mótmælum við sendiráð Bandaríkjanna í Pakistan. AFP

Hundruð Afgana fylktu liði um götur Kabúl í morgun og gengu að sendiráði Bandaríkjanna. Fólkið kastaði steinum í sendiráðsbygginguna, kveikti í bílum og ýmsu öðru og hrópaði „Dauði yfir Bandaríkjunum“. Ástæða mótmælanna er kvikmynd, framleidd í Bandaríkjunum, sem er sögð draga dár að Múhameð spámanni.

Yfirmaður líbönsku Hezbollah-hreyfingarinnar, Hassan Nasrallah, setti Bandaríkin á svartan lista yfir hryðjuverkasamtök. Hezbollah hvetur til vikulangra mótmæla gegn Bandaríkjunum og segir kvikmyndina alvarlegustu árás sem gerð hefur verið á íslamstrú, „verri en bókin Söngvar Satans eftir Salman Rushdie“.

Víða mótmælt

Í morgun komu nokkur þúsund námsmenn saman í borginni Peshawar í norðvesturhluta Pakistans og brenndu bandaríska fána og hrópuðu slagorð gegn Bandaríkjunum. Átta slösuðust í borginni Karachi, sem er stærsta borg Pakistans, þegar átök brutust út á milli lögreglu og mótmælenda sem höfðu safnast saman við ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í borginni.

Um 700 manns söfnuðust saman við sendiráð Bandaríkjanna í Jakarta í Indónesíu í mótmælaskyni. Fólkið varpaði bensínsprengjum að lögreglu sem brást við með því að sprauta vatni á fólkið og dreifa táragasi.

Google hefur lokað fyrir aðgang að kvikmyndinni í Egyptalandi, Indlandi, Indónesíu, Líbíu og Malasíu og ríkisstjórnin í Afganistan hefur takmarkað mjög aðgang að YouTube.

Víða um heim er kvikmynd, sem sögð er sýna íslamstrú …
Víða um heim er kvikmynd, sem sögð er sýna íslamstrú í óhagðstæðu ljós, mótmælt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert