Rithöfundurinn Salman Rushdie segir að skáldsaga sín, Söngvar Satans, sem kom út árið 1988 myndi ekki vera gefin út í dag vegna andrúmslofts „ótta og taugaveiklunar“. Hann lét þessi orð falla í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC.
Rushdie sagði að bannið sem hefði verið sett á bókina í mörgum löndum ásamt líflátshótunum hefðu skapað „hrollvekjandi áhrif“ á sig til lengri tíma. „Það yrði erfitt að fá að gefa út bók sem gagnrýndi íslam á þessari stundu,“ sagði hann enn fremur.
Rushide er um þessar mundir að vinna að endurminningum sínum, sem eiga að heita Joseph Anton. Heitið vísar í uppáhaldsrithöfunda Rushdies, þá Joseph Conrad og Anton Chekhov. Í bókinni mun hann lýsa því hvernig hann neyddist til þess að fara í felur í kjölfar útgáfu Söngva Satans.