Enn eitt hneykslið skekur nú kosningaframboð Mitt Romney, forsetaefni repúblikana, eftir að tímaritið Mother Jones birti í dag myndbrot á vefsíðu sinni þar sem Romney kallar kjósendur sem styðja Barack Obama velferðarþega sem finnist að stjórnvöldum beri skylda til að sjá fyrir þeim.
Romney lét ummælin falla á lokuðum fjáröflunarviðburði sem haldinn var fyrir 30 stærstu stuðningsmenn kosningabaráttu hans en á myndbandinu sést aðeins í frambjóðandann, þar sem umhverfi hans hefur verið afmáð til að vernda þann sem kom myndbandinu á framfæri.
„Hann nýtur stuðnings 47% kjósenda, sem reiða sig á stjórnvöld, sem trúa því að þeir séu fórnarlömb, sem trúa því að stjórnvöldum beri að sjá um sig, sem trúa því að þeir eigi heimtingu á heilbrigðisþjónust, mat, húsnæði, nefndu það,“ segir Romney m.a. í ávarpi sínu á viðburðinum.
„Þetta er fólk sem borgar ekki tekjuskatt. Þannig að skilaboð okkar um lága skatta ná ekki til þeirra. Ég mun aldrei sannfæra það um að það eigi að axla persónulega ábyrgð og annast um líf sitt,“ segir hann einnig.
Jim Messina, kosningastjóri Obama, var fljótur að grípa tækifærið og gagnrýna andstæðinginn fyrir ummælin. „Það er hneykslanlegt að frambjóðandi til forseta Banaríkjanna skuli fara á bak við luktar dyr og lýsa því yfir við hóp af vellauðugum fjárgjöfum að hálf bandaríska þjóðin líti á sig sem fórnarlömb sem eigi tilkall til ölmusu og séu óviljug til að taka persónulega ábyrgð á lífi sínu,“ sagði Messina.
„Það er erfitt að ætla að verða forseti allra Bandaríkjamanna þegar þú hefur fullur fyrirlitningar afskrifað hálfa þjóðina,“ sagði hann.
Framboð Romney hefur ekki svarað gagnrýninni enn sem komið er.