Hyggjast birta teikningar af Múhameð

Skopmyndamálið í Danmörku er enn mörgum í fersku minni. Mynd …
Skopmyndamálið í Danmörku er enn mörgum í fersku minni. Mynd úr safni. mbl.is

Talsmenn franska skoptímaritsins Charlie Hebdo hafa staðfest að nýjasta eintakið, sem kemur út á morgun, muni innihalda skopteikningar af spámanninum Múhameð. Sagði ritstjóri blaðsins, teiknarinn Charb, að myndirnar myndu hneyksla þá sem vildu láta hneyksla sig.

Skopteikningarnar birtast í kjölfar vikulangra óeirða í arabaheiminum og víðar sem sagðar eru eiga upptök sín í illa gerðri kvikmynd sem gerir lítið úr spámanninum og segir íslamstrúarmenn hneigða til ofbeldis. 

Stjórnmálamenn og trúarleiðtogar ákváðu í kjölfar ákvörðunar tímaritsins að beina þeim tilmælum til fjölmiðla að þeir hegðuðu sér á ábyrgan hátt og forðuðust að kynda undir ástandinu. Jean-Marc Ayrault, forsætisráðherra Frakklands, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist hafa vanþóknun á „öllum öfgum“. 

Dalil Boubakeur, yfirklerkur við stærstu mosku Parísar, bað múslima í Frakklandi að halda ró sinni. „Það er með undrun, leiða og áhyggjum sem ég hef heyrt að þetta tímarit ætli að hætta á að auka á þá reiði sem nú ríkir meðal íslamstrúarmanna.“ Hann bætti við að hann myndi biðja tímaritið um að „hella ekki olíu á eldinn“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert