Öll spjót standa nú á Mitt Romney, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Í gær kallaði hann hálfa bandarísku þjóðina „velferðarþega“ og í dag sagði hann á fjáröflunarsamkomu að Palestínumenn hefðu engan áhuga á að semja frið við Ísraela.
Þessi ummæli lét Romney falla við fjáröflunarmálsverð í Flórída í dag þar sem gestir greiddu 50.000 Bandaríkjadollara fyrir máltíðina, en það samsvarar um 6,1 milljón íslenskra króna.
Einn gestanna spurði Romney hvort hægt væri að leysa „palestínska vandamálið“. Hann svaraði því til að Palestínumenn hefðu ekki „snefil af áhuga á að koma á friði og að nánast ógjörningur [væri] því að ná sáttum“.
Við sama tilefni sagði Romney að Obama væri „barnalegur“. „Hann (Obama) heldur að persónutöfrar hans, þokki og sannfæringarkraftur geti sannfært Vladímír Pútín, forseta Rússlands, Hugo Chavez, forseta Venesúela, og Mahmoud Ahmadinejad, forseta Írans, til að hætta að gera slæma hluti,“ sagði Romney.
Romney hefur gagnrýnt Barack Obama, forseta landsins, fyrir að sýna linkind í málefnum Mið-Austurlanda.