„Senkaku-eyjar eru óaðskiljanlegur hluti Japans, bæði í sögulegu ljósi og samkvæmt alþjóðalögum. Tilkall Kínverja og Taívana til eyjanna á sér enga stoð.“ Þetta segir í fréttatilkynningu sem sendiráð Japans hér á landi sendi frá sér í morgun.
Kínverjar eru ævareiðir vegna kaupa japanskra stjórnvalda á þremur eyjum í eyjaklasanum sem Japanar nefna Senkaku, en ganga undir nafninu Diayou á kínversku og hefur þessu verið mótmælt víða um Kína undanfarna daga. Þjóðirnar tvær hafa deilt um yfirráð yfir eyjunum í árafjöld.
Í fréttatilkynningunni segir að eyjarnar þrjár hafi verið í eigu japanska ríkisins allt til ársins 1932, en þá festi Japani nokkur kaup á þeim. Japönsk stjórnvöld hafa leigt eyjarnar af honum frá árinu 2002 og í tilkynningunni segir að kaupin á eyjunum séu í fullu samræmi við lög og reglur í Japan og ættu því ekki að valda milliríkjadeilum. Ennfremur segir í tilkynningunni að japönsk stjórnvöld muni áfram takmarka umferð um eyjarnar.
Stjórnvöld í Japan hafa þungar áhyggjur af þeim mótmælum sem hafa verið í Kína undanfarna daga vegna eyjanna og munu halda áfram viðræðum „í því skyni að koma í veg fyrir misskilning og ófyrirsjáanlegt ástand“.
„Samband Japans og Kína er eitt mikilvægasta tvíhliða ríkjasamband Japans. Uppbyggingin í Kína er nauðsynleg fyrir stöðugleika og velmegun í þessum heimshluta,“ segir í tilkynningunni.