Breski Verkamannaflokkurinn er með 15% forskot á Íhaldsflokkinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun á fylgi bresku stjórnmálaflokkanna sem fyrirtækið Populus gerði. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph segir frá þessu í dag.
Íhaldsmenn mælast nú með 30% fylgi en þeir fara fyrir núverandi ríkisstjórn sem þeir mynda með Frjálslyndum demókrötum. Verkamannaflokkurinn mælist hins vegar með 45% eða helmingi meira fylgi. Frjálslyndir demókratar mælast með einungis 10%.
Verkamannaflokkurinn mælist þannig með meira fylgi nú um stundir en báðir ríkisstjórnarflokkarnir. Hins vegar eru niðurstöður könnunarinnar ekki eingöngu jákvæðar fyrir Ed Miliband, leiðtoga Verkamannaflokksins. Mun færri vilja að hann verði næsti forsætisráðherra en þeir sem vilja flokk hans í ríkisstjórn. Einungis tæpur þriðjungur vill þannig að Miliband flytji inn í Downingstræti 10.