Á breska lögreglan að bera skotvopn?

Breskir lögreglumenn að störfum.
Breskir lögreglumenn að störfum. AFP

Í kjölfar þess að tvær breskar lögreglukonur voru skotnar til bana við hefðbundin lögreglustörf hafa vaknað spurningar um hvort breska lögreglan eigi að bera skotvopn. Svipuð umræða hefur komuð upp hér á landi. Spurningin er: Duga 19. aldar vopn gegn 21. aldar glæpum? Um þetta er nú fjallað í breskum fjölmiðlum.

Aðeins örfá lögreglulið í Evrópu bera ekki skotvopn. Meðal þeirra eru auk Bretlands Noregur og Ísland.

Lögreglukonurnar sem skotnar voru til bana í Manchester á þriðjudag voru að sinna útkalli vegna tilkynningar um innbrot á heimili í úthverfi borgarinnar. Um gildru reyndist vera að ræða. Setið var fyrir lögreglumönnunum og á þær ráðist með byssum og handsprengjum.

Fangi á flótta, Dale Cregan, gaf sig síðar fram við lögreglu og hefur verið yfirheyrður vegna málsins. Í kjölfar þessa máls hafa spunnist umræður í Bretlandi um hvort lögreglumenn eigi að vera vopnaðir að staðaldri.

Fjölskylda lögreglumannsins Davids Rathband er meðal þeirra sem hafa lýst þeirri skoðun sína að breska lögreglan eigi að bera skotvopn. „Hversu margir lögreglumenn þurfa að deyja áður en yfirvöld átta sig á að á 21. öldinni er ekki hægt að berjast gegn glæpum með plastkylfu og úðabrúsa?“

Margir eru hins vegar á því að málið hafi verið mjög sérstakt og að engu hefði skipt hvort lögreglukonurnar hefðu verið vopnaðar byssum. Því ætti ekki að breyta lögum um vopnaburð lögreglumanna - að minnsta kosti ekki í flýti.

Theresa May, breskur ráðherra sem fer með málefni lögreglunnar, segir að þrátt fyrir hin grimmilegu morð verði lögum um vopnaburð ekki breytt.

Hún sagði núverandi löggjöf njóta viðtæks stuðnings, m.a. meðal lögreglumannanna sjálfra. Hún vill ekki að óbreyttir lögreglumenn gangi með skotvopn um götur. „Ég held að það sé ekki tímabært að vopna lögregluna,“ sagði hún.

Peter Fahy, lögreglustjórinn í Manchester, segir að lögreglulið hans trúi því enn staðfastlega að lögreglan eigi ekki að bera skotvopn. „Við sjáum það af reynslu Bandaríkjanna og annarra landa að því miður þýðir það ekki færri skotárásir á lögreglumenn þó að þeir séu sjálfir vopnaðir byssum.“

Norðmönnum hefur verið tíðrætt um þetta efni allt frá því að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik drap 77 manns í fyrra. Lögreglufélagið stofnaði nefnd til að skoða málið.

Gry Jorunn Holmen, talsmaður lögreglufélagsins, segir að þar sem glæpamenn beri nú vopn í auknum mæli, vilji margir að lögreglan geri slíkt hið sama.

Svipuð umræða hefur einnig átt sér stað hér á Íslandi. M.a. hefur verið rætt um hvort íslenskir lögreglumenn eigi að vera vopnaðir rafbyssum. Árið 2010 komst ríkislögreglustjóri að því að ekki væri ástæða til þess að rafbyssur færu í almenna notkun á meðal lögreglumanna.

Útlendingar furða sig oft á því er þeir koma til Bretlands, sem og Íslands, að lögreglan sé ekki vopnuð. Bæði í Bretlandi og á Íslandi eru sérsveitir lögreglunnar hins vegar vopnaðar.

Sérsveitarmenn að störfum á Ítalíu.
Sérsveitarmenn að störfum á Ítalíu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert