49 ára Bandaríkjamaður er nú fyrir rétti fyrir að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í október árið 2009. Konan hvarf sporlaust þá en árið 2011 beindist rannsókn málsins að manninum, David Viens. Í kjölfarið reyndi hann að stökkva fram af kletti í Kaliforníu þar sem hann á og rekur matsölustað.
Spilaðar voru tvær upptökur úr yfirheyrslum hjá lögreglu eftir að Viens hafði reynt að fyrirfara sér í dómsalnum í gær samkvæmt fréttavefnum NY Daily News þar sem hann lýsti því hvernig dauða eiginkonu sinnar, sem var 39 ára gömul, hefði borið að. Hann hafi gripið til þess ráðs að setja límband fyrir munn hennar og binda hendur hennar og fætur til þess að halda henni frá kókaínneyslu og öðrum ólifnaði.
Eftir að hafa bundið hana fór Viens að sofa. Hann vaknaði morguninn eftir og fann eiginkonu sína þá látna. Hann sagðist hafa orðið skelfingu lostinn og gripið til þess ráðs að koma líkinu fyrir í stórum potti fullum af vatni og sökkva því með lóðum. Hann hafi síðan eldað líkið í fjóra daga á hægum hita.
Viens vildi ekki upplýsa hvar hann hefði eldað líkið en hins vegar kom fram að hann hefði haldið eftir höfuðkúpu eiginkonu sinnar. Hann hefur haldið fram sakleysi sínu í málinu og neitað að vera spurður spurninga í réttarsalnum.