Forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, mun kynna breytingar á ríkisstjórn landsins í dag. Samkvæmt fréttum Aftenposten, norska ríkisútvarpsins og VG hverfur Jonas Gahr Støre úr embætti utanríkisráðherra og verður heilbrigðisráðherra. Hadia Tajik verður ráðherra menningarmála.
Þrátt fyrir að Støre taki við heilbrigðismálunum hverfur Anne-Grete Strøm-Erichsen, núverandi ráðherra heilbrigðismála, ekki úr ríkisstjórninni heldur verður hún varnarmálaráðherra en því embætti gegndi hún þar til hún tók við heilbrigðismálunum árið 2009. Í frétt VG um málið kemur fram að þetta séu þær breytingar sem komi mest á óvart.
Í frétt Aftenposten kemur fram að hrókeringarnar þýði að núverandi varnarmálaráðherra, Espen Barth Eide, tekur að sér embætti utanríkisráðherra.
Samkvæmt heimildum Aftenposten hverfur einn ráðherra hið minnsta úr núverandi ríkisstjórn. Er það ráðherra atvinnumála, Hanne Bjurstrøm, sem hefur setið í ríkisstjórninni frá því í október 2009. Eins er mögulegt að núverandi menningarmálaráðherra, Anniken Huitfeldt, verði einnig látin taka pokann sinn. Með þessu getur Stoltenberg komið Tajik að í ríkisstjórninni og um leið haldið kynjahlutföllunum svipuðum og þau eru í ríkisstjórninni í dag, samkvæmt frétt VG.
Tajik sem varð 29 ára þann 18. júlí sl. verður yngsti ráðherrann í ríkisstjórn Noregs í sögunni. Sissel Rønbeck var einnig 29 ára þegar hún kom inn í norsku ríkisstjórnina haustið 1979 en var nokkrum vikum eldri en Tajik nú, segir í frétt Aftenposten.