Samkvæmt skoðanakönnun Gallup sem birt var í dag bera 60% Bandaríkjamanna lítið sem ekkert traust til fjölmiðla til þess að flytja fréttir á fullan, nákvæman og sanngjarnan hátt. Hefur vantraust Bandaríkjamanna á fjölmiðlum aldrei mælst meira.
Bilið á milli jákvæðs og neikvæðs álits er 20 prósentustig og hefur aldrei mælst meira síðan Gallup hóf að kanna álit á fjölmiðlum á tíunda áratug tuttugustu aldar. Hefur vantraust á fjölmiðlum aukist ár frá ári síðan árið 2004. Fyrir þann tíma báru Bandaríkjamenn meira traust til fjölmiðla og mældist m.a. um 72% á tímabili á áttunda áratugnum.
Könnunin sýnir að hið aukna vantraust á fjölmiðlum á einkum rætur sínar í óánægju fólks sem styður Repúblikanaflokkinn og þeirra sem eru óflokksbundnir. Aðeins um 26% repúblíkana og 31% óháðra sögðu að þeir treystu dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi til þess að fara með rétt mál. Þessi fjöldi repúblikana er svipaður og var árið 2008, en fjöldi óháðra hefur snaraukist síðan þá samkvæmt könnuninni. Fleiri demókratar treysta hins vegar fjölmiðlum en í fyrra, eða 58%.
Samkvæmt Gallup fylgjast 39% þeirra sem voru spurðir vel með fréttaflutningi, en það er meira en í fyrra. Þó nær það ekki þeim 43% sem sögðu hið sama árið 2008. Könnunin fór þannig fram að 1.017 manns voru spurðir í símakönnun. Eru skekkjumörk fjögur prósentustig. Í könnun sem Gallup gerði í fyrra kom í ljós að meirihluti Bandaríkjamanna telur að fréttamiðlar séu hlutdrægir. Sögðu 47% aðspurðra að fréttamiðlar væru of „frjálslyndir“ og 13% að þeir væru of „íhaldssamir.“