Ísland er meðal þeirra ríkja sem þiggja fé sem ætlað er til að aðstoða fátækustu ríki heims. Í greinum á vef bæði Telegraph og Daily Mail kemur fram að lönd eins og Kína, Rússland og Brasilía auk Íslands séu meðal ríkja sem þiggi slíka aðstoð.
Greinarnar fjalla m.a. um fjárframlög Breta til ESB og hvernig skattpeningum Breta er varið innan sambandsins.
Í greininni á vef Telgraph kemur fram að Ísland, Tyrkland og Króatía séu meðal ríkja sem þiggi styrki frá ESB til að aðlaga stofnanir sínar sambandinu fyrir hugsanlega inngöngu. Jafnframt segir að Ísland fái 4,2 milljónir punda og þar á meðal 400 þúsund pund til að byggja upp ferðaþjónustu í þjóðgarði við Kötlu. Auk þess kemur fram að Ísland sé talið ríkara en Bretland og neiti að endurgreiða 2,3 milljarða punda sem landið skuldi breskum innistæðueigendum.
Fram kemur að ESB eyði um helmingi af 10 milljarða punda framlögum sínum til þróunaraðstoðar til ríkja sem talin eru hafa meðaltekjur eða tekjur í hærri kantinum. Þetta sé gert jafnvel þótt Bretar vilji meina að þessi ríki þurfi ekki á slíkri aðstoð að halda.
„Það er farsi að ESB skuli eyða um milljarði punda af skattpeningum breskra borgara og töluverðum hluta framlögum Breta til þróunarmála til að aðstoða ríki sem hafa meðaltekjur,“ segir Dominic Raab, þekktur efasemdamaður um ESB og meðlimur í breska Íhaldsflokknum.
Hér má sjá grein á vef Telegraph.
Hér má sjá grein á vef Daily Mail.