Skildi ekki hvers vegna ekki mátti opna glugga

Mitt Romney, forsetaframbjóðandi.
Mitt Romney, forsetaframbjóðandi. AFP

Forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, Mitt Romney, velti því fyrir sér á fjáröflunarfundi í Kaliforníu um síðastliðið laugardagskvöld hvers vegna ekki væri hægt að opna gluggana á flugvélum og þá ekki síst þegar þær væru á flugi.

Vísaði hann til þess að síðastliðinn föstudag hefði farþegaflugvél sem eiginkona hans hefði verið farþegi í þurft að nauðlenda í Denver vegna bilunar í refeindabúnaði sem varð til þess að reykur kom upp í farþegarýminu.

„Komi upp eldur í flugvél þá er engin undankomuleið, nákvæmlega engin, og þú getur ekki komið neinu súrefni inn í flugvélina utan frá vegna þess að það er ekki hægt að opna gluggana. Ég veit ekki hvers vegna það er ekki hægt. Þetta er raunverulegt vandamál. Þannig að þetta er mjög hættulegt. Og hún var að kafna og nuddaði augun. Sem betur fer var nægt súrefni fyrir flugmanninn og aðstoðarflugmanninn til þess að lenda heilu á höldnu í Denver,“ sagði Romney.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að sérfræðingar hafi bent á að ef súrefni hefði komist inn í farþegarýmið hefði það aðeins orðið til þess að auka á eldinn auk þess sem flugvélin gæti rifnað í sundur vegna loftþrýstingsins ef gluggar væru opnaðir á meðan á flugi stæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert