Allsherjarverkfall í Grikklandi

Grikkir mótmæla niðurskurði og skattahækkunum í dag.
Grikkir mótmæla niðurskurði og skattahækkunum í dag. AFP

Allsherjarverkfall hófst í Grikklandi í bítið í morgun. Allflest verkalýðs- og stéttarfélög taka þátt í verkfallinu sem er í mótmælaskyni við niðurskurðaráætlanir stjórnvalda. Búist er við því að þjóðfélagið verði meira eða minna lamað í dag; röskun verður á samgöngum og opinber þjónusta skerðist verulega.

Margir kaupmenn hafa að auki ákveðið að loka verslunum sínum í dag.

Þetta er þriðja allsherjarverkfallið í landinu á þessu ári, en það fyrsta frá því að ný samsteypustjórn tók við í júní síðastliðnum.

Krafa um 11,5 milljarða evra niðurskurð

Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gera þá kröfu til Grikkja að þeir skeri niður 11,5 milljarða evra. Að auki er þeim gert að hækka skatta  til þess að ná inn tveimur milljörðum evra til viðbótar og verða tillögur þar að lútandi kynntar á þinginu í næsta mánuði.

Gangi Grikkjar að kröfum ESB og AGS eiga þeir kost á 31,5 milljarða evru láni sem auk AGS og ESB verður veitt af Seðlabanka Evrópu.

Kemur einna verst niður á opinberum starfsmönnum

Fyrirhugaðar niðurskurðaraðgerðir og skattahækkanir eru sagðar koma einna verst niður á opinberum starfsmönnum, sem hafa þurft að þola tekjuskerðingu upp á allt að 40% á undanförnum tveimur árum. Að auki eru uppi fyrirætlanir um að hækka eftirlaunaaldur úr 65 árum í 67, en hann var síðast hækkaður fyrir tveimur árum síðan.

En þrátt fyrir allar þessar aðgerðir og niðurskurð, er alls óvíst hvort nóg sé að gert til að koma Grikkjum á réttan kjöl. Verkalýðsfélög hafa bent á að allur þessi niðurskurður hafi leitt til gríðarlegs atvinnuleysis og efnahagslægðar fimmta árið í röð.

Frá mótmælum í Grikklandi.
Frá mótmælum í Grikklandi. AFP
Frá mótmælum í Grikklandi.
Frá mótmælum í Grikklandi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert