Clinton þrýstir á Íraka

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þrýstir nú á Íraka að verða við tilmælum vestrænna ríkja um að banna tiltekna flugumferð í lofthelgi Íraks, en talið er að nokkur ríki hafi flogið yfir Írak með hergögn til sýrlenska stjórnarhersins.

Clinton átti fund með Khudayr al-Khuzaie, varaforseta Íraks, síðdegis í gær þar sem þetta var rætt. 

„Við höfum gert Írökum grein fyrir því að þeir verða að binda enda á þessa flugumferð og þeir hafa sýnt viðleitni í þá átt, m.a. með því að banna umferð norður-kóreskrar flugvélar,“ sagði talsmaður bandarískra stjórnvalda í samtali við AFP-fréttastofuna.

Í síðustu viku bönnuðu Írakar norður-kóreskri flugvél að fljúga inn í lofthelgi landsins. Vélin var á leið til Sýrlands og talið var að hergögn væru um borð. Áður höfðu íröksk stjórnvöld gefið út þá yfirlýsingu að flugvélar frá Íran, sem flyttu hergögn til sýrlenska hersins, fengju ekki að fara inn í lofthelgina.

Íranar neita því staðfastlega að þeir flytji vopn til Sýrlands og segjast vera að senda þangað hjálpargögn.

Bandarísk stjórnvöld hafa farið fram á það við Íraka að öllum írönskum flugvélum, sem fljúga yfir landið, verði gert að millilenda í Bagdad þar sem leitað verði að vopnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert