Gríska lögreglan beitti táragasi og piparúða gegn mótmælendum í Aþenu höfuðborg Grikklands í dag sem sjálfir beittu fyrir sig bensínsprengjum. Allsherjarverkfall hófst í landinu í dag vegna efnahagsástandsins og aðhaldsaðgerða stjórnvalda.
Nokkur hundruð manns tóku þátt í mótmælunum samkvæmt fréttavef USA Today en þau fóru aðallega fram fyrir utan gríska þinghúsið. Kveikt var í trjám og gangstéttarhellur brotnar til þess að nota gegn óeirðarlögreglu.
Fram kemur að um 50 þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælagöngu í Aþenu í dag í tengslum við verkfallið sem sett hefur flestar samgöngur úr skorðum í Grikklandi og sama á við um sjúkrahús og skóla.