700.000 flóttamenn fyrir árslok

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna varar við því að fyrir árslok muni allt að 700.000 manns hafa flúið Sýrland vegna ástandsins þar. Það er mun meiri fjöldi en áður hafði verið spáð. 

Nú þegar hafa um 294.000 flóttamenn yfirgefið landið og hefur flóttamannahjálpin óskað eftir 490 milljónum dala frá SÞ til að glíma við vandann. Flóttafólkið hefst flest við í neyðarbúðum í Tyrklandi, Líbanon og Jórdaníu.

Samtökin Syrian Observatory for Human Rights segja að gærdagurinn hafi verið sá blóðugasti í 18 mánaða sögu átakanna, en a.m.k. 305 voru drepnir víðsvegar um landið að þeirra sögn, þar af 199 almennir borgarar. Samtökin skrá þá sem vitað er hverjir voru. „Ef við myndum telja með lík sem ekki tekst að bera kennsl á væri talan mun hærri.“

Flóttamannahjálp SÞ segir að 2.000-3.000 flóttamenn fari nú yfir landamæri Sýrlands til nágrannalandanna á hverjum einasta degi. „Margir koma með ekkert nema fötin sín meðferðis,“ hefur BBC eftir Panos Moumtzis, svæðisstjóra flóttamannahjálparinnar. 

Í mars áætlaði flóttamannahjálpin að um 100.000 manns myndu hafa flúið landið fyrir árslok. Þeim fjölda varð þegar náð í júlí og því spáð að talan verði sjöfalt hærri um áramót verði ekkert að gert. Kappkostað er að undirbúa flóttamannabúðirnar fyrir veturinn, því margir búa í tjöldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert