Obama eykur fylgi sitt

Flestar skoðanakannanir sem gerðar hafa verið undanfarna daga sýna að fylgi Baracks Obama eykst á kostnað Mitts Romneys. Óheppilegum ummælum Romneys, þar sem hann sagði að 47% Bandaríkjamanna kysu Obama vegna þess að þeir væru á framfæri hins opinbera, er aðallega kennt um.

Stuðningsmenn Romneys binda miklar vonir við kappræður frambjóðendanna í næstu viku, hinn 3. október. Það verða þær fyrstu af þremur kappræðum frambjóðendanna og verða þær sendar út beint.

Greina má nokkuð breyttan tón í málflutningi Romneys. Til dæmis sagðist hann í gær „finna til í hjartanu“ vegna atvinnuleysisins í landinu og sagði ríkisstjórnina hafa hlutverki að gegna við að annast þá sem á því þyrftu að halda.

Romney hefur lýst því yfir að nái hann kjöri muni hann leita leiða til að flytja störf hjá bandarískum fyrirtækjum aftur til landsins, en mörg stórfyrirtæki hafa flutt framleiðslu sína til Kína að hluta til eða jafnvel að fullu. Obama hefur í þessu sambandi bent á að Romney hafi fjárfest í nokkrum þessara fyrirtækja og þannig óbeint stutt við þessa þróun.

Nú er sjónum einkum beint að Ohio-ríki, sem er sagt eitt af svokölluðum lykilríkjum sem gætu ráðið úrslitum í kosningunum. Þar er hefð fyrir miklu fylgi Repúblikana en nú eru blikur á lofti fyrir þá, því kannanir sýna að Obama nýtur þar meira fylgis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert