Sænskt par hefur verið sektað um samtals 31.200 sænskar krónur, en það jafngildir rúmum 592 þúsund íslenskum krónum, fyrir glannalegan akstur en parið virðist hafa stundað kynmök undir stýri á bifreið.
Málavextirnir voru með þeim hætti að ökumaður sem ók eftir E4-hraðbrautinni í nágrenni við borgina Linköping í miðhluta Svíðþjóðar í lok júlí síðastliðins varð var við að kvenkyns farþegi í Porsche-blæjubíl, sem keyrði framhjá honum á um það bil 80 kílómetra hraða, sat klofvega fyrir karlkyns ökumanni bifreiðarinnar.
Taldi maðurinn þetta það hættulegt athæfi að hann tilkynnti það til lögreglu sem svaraði útkallinu stuttu síðar. Þegar lögreglumenn stöðvuðu Porsche-bifreiðina sáu þeir konuna, sem var buxnalaus, setjast í farþegasætið í einum hvelli. Aðspurð af lögreglumönnunum hvers vegna hún hefði ekki setið í farþegasætinu svaraði hálfnakta konan að hún hefði einfaldlega verið sleikja burt ís sem hafði óvart sullast á ökumann bifreiðarinnar.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu hélt ökumaðurinn því fram að hann og konan hefðu verið „örlítið dónaleg“ og að hún hefði einungis verið að „kyssa burt ísinn“. Konan viðurkenndi hinsvegar síðar meir að hún hefði verið að gera „örlítið meira en bara að þrífa upp ís af andliti og líkama mannsins“.
Nánar er fjallað um málið á fréttavefnum The Local.