Þeim ríkustu ætlað að bera auknar byrðar

Stjórn sósíalista í Frakklandi kynnti í dag sitt fyrsta fjárlagafrumvarp en við það tækifæri sagði forsætisráðherrann Jean-Marc Ayrault, að tekjuskattur níu af hverjum tíu Frakka myndi ekki hækka.

Ayrault sagði frumvarpið einkennast af hugrekki og ábyrgð, það væri „hólmgöngufrumvarp“ í atlögunni við síhækkandi opinberar skuldir. 

Staðfest er í frumvarpinu, að lagður verður 75% skattur á tekjur umfram milljón evrur á ári, en talið er að það náði til á milli 2000 og 3000 skattgreiðenda. Hverjar hinar auknu álögur á afganginn af þeim 10% sem bera myndu auknar skattbyrðar hafa ekki verið útskýrðar. Þó hefur nýtt 45% skattþrep verið boðað á tekjur yfir 150.000 evrum á ári.

Ayrault sagði forgangsefni ríkisstjórnar sinnar starfsþjálfun ungs fólks og að lækka útgjöld ríkissjóðs um 10 milljarða evra. Það krefðist fórna en byrðarnar yrði réttlát. Í því sambandi yrðu útgjöld hins opinbera fryst, að undanteknum greiðslu skulda og lífeyris. Þá blasa auknar álögur á atvinnulífið við - aðallega á stórfyrirtæki - þar sem margs konar skattfríðindi og ívilnanir verða upprætt.

Á næsta ári hyggst ríkisstjórn Ayrault ná markmiðum sínum í ríkisfjármálum að tveimur þriðju með hækkun skatta og að þriðjungi með lækkun útgjalda hins opinbera. Forsætisráðherrann segir að árið 2014 verði markmiðunum náð til helminga með skattheimtu og sparnaði útgjalda.

Birtar voru í dag opinberar hagtölur sem sýna, að skuldir Frakka námu 91% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu apríl til júní. Hlutfallið var 89,3% í marslok, eða langt yfir markmiðum samþykktum Evrópusambandsins sem kveða á um að opinberar skuldir aðildarríkjanna fari ekki upp fyrir 60%.

Ayrault sagði í dag, að skuldirnar hafi ekki hætt að hækka undanfarin fimm ár. Stefnu stjórnar hans í ríkisfjármálum væri ætlað að snúa þróuninni við og endurreisa efnahagslega heilbrigði Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert