Allir taldir af eftir flugslys

Flugmálayfirvöld í Nepal telja líklegt að flugslys, sem átti sér stað skammt frá Katmandú-flugvelli í gær, megi rekja til mistaka af hálfu flugmanns vélarinnar. Alls voru 19 farþegar um borð í flugvélinni og eru þeir allir taldir af.

Staðfest hefur verið að sjö breskir ríkisborgarar og fimm kínverskir eru meðal þeirra sem létust í slysinu.

Flugvélin var af gerðinni Dornier Fairchild 228 og skömmu eftir flugtak tóku flugumferðarstjórar eftir því að hún lét undarlega í loftinu. Samkvæmt flugmálayfirvöldum í Nepal hafði flugmaður vélarinnar tilkynnt flugumferðarstjórum um að vélin hefði flogið á fugl.

Skömmu síðar brotlenti flugvélin og hafnaði við árbakka skammt frá flugvellinum.

Flugmálayfirvöld telja að flugstjórinn hafi ekki brugðist rétt við atvikinu. Hann hafi tekið of krappa beygju, miðað við flughæð og -hraða, með þeim afleiðingum að vélin missti hæð.

Starfsmenn flugvallarins segja að hægri hreyfill vélarinnar hafi orðið alelda fljótlega eftir að flogið var á fuglinn. Þá segja þeir jafnframt að gríðarleg sprenging hafi orðið við brotlendinguna.

Flugvélin var á leið til bæjarins Lukla sem er rétt við Everest-fjall.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert